
@ eirikur
2025-05-15 14:00:34
Í nafni réttlætis
Helstu gagnrýnisraddir frjáls markaðar beinast oft að því að hann skorti réttlæti, og er þá átt við félagslegt réttlæti - ójöfnuð í auði og tekjum.
Lausnin sem boðuð er felst í ríkisafskiptum sem eiga að „leiðrétta“ þessa meintu neikvæðu niðurstöðu frjáls markaðar. Sú krafa að markaðurinn þurfi að vera félagslega réttlátur felur ekki aðeins í sér misskilning á eðli markaðarins sjálfs, heldur einnig í því hvað felst í réttlæti.
En hvað felst í réttlæti? Öllum hugtökum má snúa upp á og sníða að hentugleika þess sem notar þau. Þegar „réttlæti“ er sett í félagslegt samhengi og notað sem réttlæting fyrir afskiptum ríkisins, hefur merkingin fjarlægst uppruna sinn. Þannig verður réttlæti ekki lengur spurning um að hver fái sitt, heldur hver fái eitthvað – frá einhverjum öðrum.
Ef við ætlum að ræða réttlæti af einhverju viti, verðum við að byrja á að gefa okkur einhverjar frumsendur. Réttlæti hlýtur að felast í því að einstaklingurinn hafi óskoraðan rétt til sjálfs síns – líkama síns, huga og athafna – og til eigna sinna. Að enginn megi taka eignir hans gegn vilja hans, né skipa honum hvernig hann eigi að nota þær, eða sjálfan sig. Hver sá sem brýtur gegn þessum grundvallarreglum, hvort sem það er einstaklingur eða ríkisvaldið sjálft, fremur ranglæti gegn eignarrétti einstaklingsins.
Hugtakið „félagslegt réttlæti“ hefur enga skýra merkingu. Það vísar ekki til neins hlutlægs raunveruleika heldur er það notað sem tilfinningalegt slagorð – oftast af þeim sem telja sig vita hver eigi að fá hvað, en vilja forðast að færa fyrir því rök. Þegar krafa er gerð um að markaðurinn skili „réttlátri“ niðurstöðu, er í raun verið að heimta að ópersónuleg og ómiðstýrð atburðarás – sem byggir á óteljandi ákvörðunum frjálsra einstaklinga – framkalli fyrirfram ákveðna útkomu samkvæmt hugmynd einhvers annars um hvað sé „réttlátt“.
En markaðurinn er ekki meðvitað fyrirbæri. Hann velur ekki. Hann ákveður ekki. Hann er ekki siðferðilegur gerandi. Hann er einfaldlega afleiðing frjálsra samskipta fólks sem leitast við að bæta eigið líf. Að spyrja hvort markaðurinn sé réttlátur er því eins og að spyrja hvort veðrið eða árfarvegurinn séu siðlaus – það getur hljómað gáfulega, en er í eðli sínu bull.
Samfélög þróast ekki með fyrirfram ákveðinni hönnun, heldur í gegnum prófanir, reynslu og aðlögun einstaklinga - sjálfsprottið skipulag byggt á frjálsum samskiptum. Reglur spretta fram af raunveruleikanum sjálfum – þær sem virka haldast, aðrar deyja út. Að ætla sér að stýra þessum þróunarlögum með miðlægri hugmyndafræði um jafnræði eða útkomujöfnuð er ekki aðeins óraunsætt, heldur krefst það brots á þeim meginreglum sem gera frjáls samskipti möguleg: eignarrétti, samningafrelsi og virðingu fyrir einstaklingnum sem sjálfstæðri og siðferðilegri veru.
Margir sem gagnrýna frjálsan markað gera það ekki vegna skorts á virkni, heldur vegna óánægju með niðurstöðuna. Þeir viðurkenna að markaðurinn virki – að hann hvetji til nýsköpunar, framleiðni og bættra lífskjara – en hafna síðan afleiðingunum ef þær samræmast ekki hugmyndum þeirra um jöfnuð. Þeir eru ekki ósáttir við ferlið sem slíkt, heldur við þá staðreynd að sumir græða meira en aðrir. Þá kalla þeir aðilar eftir afskiptum: ekki til að laga kerfið, heldur til að stýra því að fyrirfram ákveðinni útkomu.
Slík inngrip ganga þvert á eðlilega virkni markaðarins. Þau veikja hvata, trufla verðmyndun og leiða að lokum til lakari nýtingar á sjaldgæfum auðlindum. Þótt kerfið kunni að virðast réttlátara á yfirborðinu, er raunveruleg niðurstaða oftar en ekki sóun og dýpri fátækt en ella væri. Að réttlæta afskipti ríkisins með vísan í réttlæti er eins og að ætla að stýra farvegi árinnar eftir því hvaða plöntur eiga skilið að fá vatn. En áin – líkt og markaðurinn – finnur sjálf sinn farveg, og plönturnar – rétt eins og einstaklingar – aðlagast honum, finna sinn stað og dafna þar sem skilyrðin leyfa. Þegar við reynum að stýra flæðinu eftir geðþótta, töpum við því náttúrulega samspili sem annars skapa jafnvægi án þess að nokkur þurfi að skipa fyrir.
Þó efnahagslegar og huglægar röksemdir sýni fram á villur í hugmyndinni um félagslegt réttlæti, þá duga þær ekki einar og sér. Til að verja frelsi þarf siðferðilegan grunn. Frelsi er ekki aðeins hagkvæmt – það er alltaf það rétta. Réttlæti felst ekki í því að niðurstaða falli einhverjum í geð, heldur í því að enginn hafi brotið gegn rétti annars. Réttlæti er ekki afleiðing hagkvæmni; það er forsenda þess að frelsi hafi yfirhöfuð einhverja merkingu.
Það dugar ekki að réttlæta frelsi með tilvísun í betri lífskjör. Um leið og rætt er um réttlæti, þarf að leggja mat á sjálfa athöfnina, ekki bara afleiðingarnar. Ef frelsi er „gott“ þegar það leiðir til velmegunar, hlýtur það líka að vera réttmætt í sjálfu sér – óháð niðurstöðunni.
Því verður ekki rætt um eignarrétt án þess að spyrja hvort eign hafi verið fengin á réttan hátt. Að halda eign segir ekkert um réttmæti hennar. Sá sem rænir hús á það ekki – og vald ríkisins breytir engu um það. Réttur byggist ekki á valdi, heldur á þeirri einföldu siðferðisreglu að enginn megi beita ofbeldi gegn öðrum – hvorki einstaklingar né ríkisvaldið.
Að hafna hugmyndum um „félagslegt réttlæti“ þýðir ekki að allar núverandi eignir eða kerfi séu sjálfkrafa réttlætanleg. Dæmi eins og upphafleg úthlutun veiðiheimilda á Íslandi sýna að eignir sem ekki eru fengnar á frjálsum markaði, heldur með pólitískum íhlutunum, skapa óréttlæti. Markaðurinn getur aðeins verið réttlátur ef aðgangur að gæðum og verðmyndun þeirra byggir á frjálsum viðskiptum, ekki forréttindum. Það þýðir þó ekki að lausnin sé að ríkisvaldið hrifsi til sín aftur það sem áður var úthlutað – heldur að skapa skýran, stöðugan ramma þar sem þessi gæði ganga á kaupi og sölu eins og aðrir eignarhlutir. Réttlæti verður ekki tryggt með því að bæta ranglæti ofan á annað ranglæti.
Ef við viljum samfélag sem byggir á frelsi, þurfum við að byggja það á réttlæti. En þá verðum við að hugsa réttlæti ekki sem eitthvað sem stjórnmálamenn, vopnaðir dyggðarskreytingum og skammsýnum vinsældum, ákveða eftir eigin mælikvarða – heldur sem siðferðilega reglu sem gildir jafnt fyrir alla. Og sú regla er einföld: Enginn má ráðast gegn öðrum. Allt sem fer gegn þessari reglu – hversu fögur orð sem notuð eru til réttlætingar – er ranglæti.
Réttlæti felst ekki í því að útkomur séu jafnaðar, heldur í því að aðferðirnar séu sanngjarnar. Að beita frelsi og virða eignarrétt án ofbeldis er sú eina siðferðilega og raunhæfa leið sem leiðir til friðsæls og blómlegs samfélags. Markaðurinn þarf ekki að vera „réttlátur“ samkvæmt geðþótta viðmiðum stjórnmálaafla – hann þarf aðeins að vera frjáls. Því þar sem frelsi ríkir, þar skýtur réttlæti rótum. Þar sem réttlæti ríkir, þar dafnar einstaklingurinn – og með honum siðmenningin sjálf.
Réttlátt samfélag er ekki byggt á óréttlátri aðferð. Ef réttlæti á að þýða eitthvað, þá hlýtur það að krefjast þess að við virðum frelsi hvers einstaklings – ekki aðeins þegar okkur líkar við niðurstöðuna, heldur líka þegar við gerum það ekki. Ríkisvald sem stýrir útkomum með valdboði, í nafni réttlætis, brýtur gegn réttlætinu sjálfu. Frjáls markaður er ekki fullkominn, en hann er eina kerfið sem byggir á samþykki, ábyrgð og virðingu fyrir manninum sem sjálfstæðri veru. Þar sem slíkir grunnar eru lagðir, þar getur raunverulegt réttlæti fengið frið til að blómstra.